Lífið

American Idol-söng­konan Mandisa er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Mandisa á verðlaunahátíð 2014.
Mandisa á verðlaunahátíð 2014. AP

Bandaríska söngkonan Mandisa, sem vakti athygli í fimmtu þáttaröð American Idol, er látin, 47 ára að aldri.

Mandisa hafnaði í níunda sæti fimmtu þáttaraðarinnar þar sem söngarinn Taylor Hicks stóð uppi sem sigurvegari. Eftir að Idol-ævintýri Mandisu lauk gerði hún garðinn frægan á sviði gospeltónlistar.

Greint var frá andlátinu í gær en hún lést á heimili sínu í Nashville. Ekki liggur fyrir um hvað hafi dregið hana til dauða á þessu stigi.

Paula Abdul, sem var einn dómara í Americal Idol 2006, minnist söngkonunnar á samfélagsmiðlum og segir hana hafa verið sannan „ljósgjafa“.

Mandisa vann til Grammy-verðlauna fyrir plötu sína Overcomer í flokki bestu kristilegrar tónlistar árið 2014.

Hún hlaut jafnframt tilnefningar til Grammy-verðlauna fyrir plötur sínar What If We Were Real frá árinu 2011, Freedom frá árinu 2009 og True Beauty frá árinu 2007.

Mandisa ræddi opinskátt um glímu sína við þunglyndi og sorg í minningarbók sinni Out of the Dark: My Journey Through The Shadows To Find God's Joy sem kom út árið 2022.

Hicks minnist sömuleiðis Mandisu á samfélagsmiðlum og segist munu sakna hennar mikið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×